Hönnuðurinn - Pálmi Einarsson

Pálmi er fæddur í Kópavogi, sá níundi í röð tíu systkina. Hann hefur frá unga aldri haft brennandi áhuga á tækni, hvernig hlutir virka og sköpuninni sjálfri. Hann heillaðist af náttúru Íslands þegar hann var sendur austur í Suðursveit átta ára gamall og ílengdist þar fram yfir tvítugt.

Árið 1986 stundaði hann nám í búfræði í Bændaskólanum á Hvanneyri og stefndi þá að því að verða bóndi. Þær áætlanir breyttust og eftir að hafa komið víða við ákvað hann að leggja stund á iðnhönnun í The Design Academy Eindhoven í Hollandi þaðan sem hann útskrifaðist árið 2000 og var verðlaunaður fyrir lokaverkefni sitt Robert.

Frá 1994-2004 starfaði Pálmi sem verkefnastjóri, vöruhönnuður og síðar deildarstjóri rannsókna- og þróunarsviðs stoðtækja (director of research & development, prosthetics) hjá Össuri hf. á Íslandi. Árið 2004 flutti hann til Kaliforníu þar sem hann starfaði fyrst sem ráðgjafi og síðar deildarstjóri þróunarsviðs stuðningstækja (V.P. of research & development, orthopaedics) hjá dótturfélaginu Össur Americas fram til ársins 2011. Eftir standa hátt í eitt hundrað einkaleyfi á hans nafni í eigu fyrirtækisins.

Pálmi eignaðist tvo drengi í Kaliforníu og flutti aftur heim til Íslands með eiginkonu sinni og börnum í lok árs 2010. Þriðji drengurinn fæddist 2014, en fyrir átti Pálmi son fæddan 1990.

Frá árinu 1991 rak hann samhliða öðrum störfum eigið hönnunar- og ráðgjafafyrirtæki; pe design á Íslandi og designhouseone í Bandaríkjunum og hélt með því sköpunarkraftinum við. Í byrjun árs 2012 stofnaði hann svo fyrirtækið Geislar hönnunarhús sem er enn í dag hans aðalstarf.

Pálmi hefur fengist við kennslu hjá Listaháskóla Íslands og verið óstöðvandi í að afla sér dýpri þekkingar á tækni og sköpuninni í sinni víðustu merkingu og möguleikum til að skapa friðsælli og sjálfbærari heim og hefur haldið fjölda kynninga á því sviði. Edengarðar Íslands, Fiskaland og Arfurinn eru sem dæmi hugarfóstur hans.

Sumarið 2018 flutti hann ásamt fjölskyldu sinni og fyrirtæki úr Kópavoginum á bæinn Gautavík í Berufirði. Þar vinna þau að því að byggja upp blandaðan sjálfbæran búskap og stefna að sölu beint frá býli.

Geislar hönnunarhús ehf.

Gautavík, Berufirði
766 Djúpavogi
Sími: 777 6190 (Pálmi)
Sími: 869 7411 (Oddný)

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Kt. 680212-1630
Reikn.nr. 0111-26-290212