Pálmi Einarsson, iðnhönnuður

Pálmi er fæddur í Kópavogi, sá níundi í röð tíu systkina. Hann hefur frá unga aldri haft brennandi áhuga á tækni, hvernig hlutir virka og sköpuninni sjálfri og hefur verið óstöðvandi í að afla sér dýpri þekkingar á því sviði og möguleikunum til að skapa friðsælli og sjálfbærari heim. Hann hefur haldið fjölda fyrirlestra því tengt og eru Edengarðar Íslands, Fiskaland og fyrirlestur um sköpunina dæmi um hugarfóstur hans.

Pálmi heillaðist af náttúru Íslands þegar hann var sendur í sveit austur í Suðursveit níu ára gamall og ílengdist þar fram yfir tvítugt og gegndi þar ýmsum störfum.

Árið 1986 hóf hann nám í búfræði við Bændaskólann á Hvanneyri og stefndi þá að því að verða bóndi. Þær áætlanir breyttust og eftir að hafa komið víða við ákvað hann að leggja stund á iðnhönnun í The Design Academy Eindhoven í Hollandi. Hann útskrifaðist þaðan með B.Sc. gráðu árið 2000 og var verðlaunaður fyrir lokaverkefni sitt Robert.

Frá 1994-2011 starfaði Pálmi hjá stoðtækja- og stuðningsvörufyrirtækinu Össuri hf.

Frá 1994-2000 sem verkefnastjóri og vöruhönnuður og frá 2000-2004 sem deildarstjóri rannsókna- og þróunarsviðs stoðtækja (Director of Research and Development, Prosthetics) í höfuðstöfðum félagsins á Íslandi, þar sem þau hjónin kynntust. 

2003/2004 fluttu þau á vegum fyrirtækisins til Kaliforníu þar sem Pálmi starfaði fyrstu mánuðina sem ráðgjafi og svo sem framkvæmdastjóri þróunarsviðs stuðningstækja (Vice President of Research and Development, Orthopaedics) hjá dótturfélaginu Össur Americas.

Eftir standa hátt í eitt hundrað einkaleyfi á hans nafni í eigu fyrirtækisins.

Frá árinu 1991-2012 rak hann, samhliða öðrum störfum, eigið hönnunar- og ráðgjafafyrirtæki; pe design á Íslandi, designhouseone í Bandaríkjunum þar sem hann fékkst meðal annars við ljósmyndun og grafíska hönnun og hélt með því sköpunarkraftinum við.

Í mars árið 2012 stofnaði hann fyrirtækið Geislar hönnunarhús sem var staðsett í Bolholti í Reykjavík fyrstu sex árin, en undir vörumerki Geisla hannar hann og framleiðir gjafavörur, minjagripi og módel leikföng og býður upp á hönnunarráðgjöf og skurðarþjónustu fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Vorið 2018 keyptu þau hjónin lögbýlið Gautavík í Berufirði í Múlaþingi. Þau fluttu þangað með börnin og fyrirtækið það sumar og sinna þar sínum störfum. Þann 1. júlí 2021 opnuðu þau býlið formlega fyrir ferðamönnum þar sem þau bjóða upp á leiðsögn og ýmsa afþreyingu ásamt verslun með eigin handverki og matvælum til að neyta á staðnum, m.a. frá félagsmönnum í Samtökum smáframleiðendum matvæla þar sem Oddný gegnir stöðu framkvæmdastjóra.

Á býlinu stunda þau blandaðan smábúskap; halda sauðfé, hesta, grísi, endur, hænur og silunga í tengslum við samrækt (aquaponics), stunda matjurtaræktun og tilraunaræktun á iðnaðarhampi og úrvinnslu vara úr honum. Í það tilraunaverkefni hafa þau fengið tvo styrki; frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (jan 2020) og Uppbyggingasjóði Austurlands (feb 2020). Á býlinu hafa þau meðal annars komið upp fræðslusetri um iðnaðarhamp og samrækt og heimatilbúnum golfvelli.

Frá 2019 hafa þau hjónin unnið ötullega að vitundarvakningaverkefni sínu um notagildi iðnaðarhamps og möguleikum hans til að stórauka sjálfbærni á fjölmörgum sviðum og var stór hluti af því verkefni að fá regluverkinu breytt. Haustið 2020 hófu þau sölu beint frá býli á Finola hamptei úr eigin ræktun og haustið 2021 var því dreift í ríflega 40 matvöruverslanir um land allt. Hampsmyrslið er eingöngu selt beint frá býli.

Pálmi fékkst um tíma við kennslu hjá Listaháskóla Íslands. Veturinn 2020-2021 kenndi hann áfangann Hönnun og smíði  í Djúpavogsskóla og frá 2020 hefur hann kennt áfangann Sjálfbærnilausnir úr iðnaðarhampi  í Hallormsstaðaskóla sem er hluti af námsbraut skólans Sjálfbærni og sköpun

 

Geislar Gautavík ehf.

Gautavík, Berufirði
766 Djúpavogi
Sími: 777 6190 (Pálmi)
Sími: 869 7411 (Oddný)

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Kt. 680212-1630
Reikn.nr. 0111-26-290212