Oddný Anna Björnsdóttir, viðskiptafræðingur

 

Oddný er fædd og uppalin í Reykjavík. Hún er mikill náttúruunnandi sem lærði að meta náttúru Íslands í ferðalögum fjölskyldunnar í æsku og þegar hún stundaði staðarnám á Bifröst árin 1995-1998, þaðan sem hún útskrifaðist með B.S. gráðu í viðskiptafræði.

Hún kom víða við á námsárum sínum, en frá 1998-2008 starfaði hún hjá Össuri hf.

Fyrri fimm árin starfaði hún frá Íslandi sem vörustjóri (Global Product Manager) og deildarstjóri vörustjórnunar- og tæknisviðs (Director of Global Product & Technical Management).

Frá 2003-2008 starfaði hún hjá Össur Americas í Kaliforníu sem framkvæmdastjóri markaðs- og almannatengsla (Vice President of Marketing and Public Relations) og síðar sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar (Vice President of Business Development / M&A) fyrir Norður Ameríku.

Árið 2008 ákvað hún að skipta um starfsvettvang og hóf meistarnám í alþjóðaviðskiptum frá Bifröst, í fjarnámi frá Kaliforníu. Samhliða því sjálfmenntaði hún sig í lífrænum og sjálfbærum ræktunaraðferðum, heilbrigðu mataræði og lífsstíl, neytenda-, dýra- og umhverfisvernd.

Frá 2010-2016 starfaði hún sem ráðgjafi, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri fyrirtækja í lífræna og heilsugeiranum í eigu Auðar Capital, síðar Virðingar, nú Kviku; lengst af, eða frá desember 2011 sem framkvæmdastjóri heildsölunnar Yggdrasill sem sérhæfði sig í innflutningi, markaðssetningu og dreifingu á lífrænum vörum og heilsuvörum, þ.m.t. Himneskri Hollustu og NOW fæðubótarefnunum.

Samhliða því var hún ötull talsmaður lífræns og heilbrigðs lífsstíls, neytenda-, dýra- og umhverfisverndar. Hún var hvatamaður að stofnun Samtaka lífrænna neytenda og sat í starfshópum Neytendasamtakanna á sviði matvæla og landbúnaðar frá 2011-2017. Hún hefur setið í stjórn Vottunarstofunnar Tún (2014-2020), Landbúnaðarklasans (2018-2020), Hampfélagsins frá 2019 og Icelandic Lamb frá 2021.

Frá 2014 hefur hún sinnt sölu- og markaðssmálum Geislar Gautavík (áður Geislar hönnunarhús) samhliða öðrum störfum, en hönnunarvörur fyrirtækisins fást í um 50 verslunum um land allt og hafa selst í tugþúsundum eintaka frá því fyrirtækið var stofnað.

Frá því að Yggdrasill var selt á vordögum 2016 hefur hún starfað sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði matvæla og landbúnaðar. Sem slíkur hefur hún sinnt ráðgjöf og unnið fjölda verkefna fyrir fyrirtæki, stofnanir og samtök eins og Krónuna (apr 2016 - nóv 2017) sem ráðgjafi og verkefnastjóri í umhverfis-, samfélags- og lýðheilsumálum (bls. 40), Íslandsstofu (okt 2017 - maí 2018) sem verkefnastjóri greiningar á vottunum og upprunamerkingum matvæla , Matarauð Íslands (jan 2018 - nóv 2019) sem verkefnastjóri greiningar á starfsemi Beint frá býli og íþyngjandi regluverki, koma á fót REKO hringjum hér á landi og greina þörf á og undirbúa stofnun samtaka smáframleiðenda matvæla, Icelandic LambMjólkursamsölunaBændasamtökin og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (apr 2019 - sept 2020) sem formaður samráðshóps um betri merkingar matvæla, skipuð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Frá desember 2019 hefur hún sinnt starfi framkvæmdastjóra Samtaka smáframleiðenda matvæla. Hún hefur jafnframt skrifað fjölda greina og haldið erindi víða um land.

Vorið 2018 keyptu þau hjónin lögbýlið Gautavík í Berufirði í Múlaþingi. Þau fluttu þangað með börnin og fyrirtækið það sumar og sinna þar sínum störfum. Þann 1. júlí 2021 opnuðu þau býlið formlega fyrir ferðamönnum þar sem þau bjóða upp á leiðsögn og ýmsa afþreyingu ásamt verslun með eigin handverki og matvælum til að neyta á staðnum, m.a. frá félagsmönnum í Samtökum smáframleiðenda matvæla.

Á býlinu stunda þau blandaðan smábúskap; halda sauðfé, hesta, grísi, endur, hænur og silunga í tengslum við samrækt (aquaponics), stunda matjurtaræktun og tilraunaræktun á iðnaðarhampi og úrvinnslu vara úr honum. Í það tilraunaverkefni hafa þau fengið tvo styrki; frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (jan 2020) og Uppbyggingasjóði Austurlands (feb 2020). Á býlinu hafa þau meðal annars komið upp fræðslusetri um iðnaðarhamp og samrækt og heimatilbúnum golfvelli.

Frá 2019 hafa þau hjónin unnið ötullega að vitundarvakningaverkefni sínu um notagildi iðnaðarhamps og möguleikum hans til að stórauka sjálfbærni á fjölmörgum sviðum sem varð til þess að regluverkinu var breytt, fyrst með reglugerðarbreytingu vorið 2020 og svo með breytingu á lögum vorið 2021. Haustið 2020 hófu þau sölu beint frá býli á Finola hamptei úr eigin ræktun og haustið 2021 var því dreift í ríflega 40 matvöruverslanir um land allt. Hampsmyrslið er eingöngu selt beint frá býli.

Frá 2020 hefur hún tekið að sér að vera gestakennari með námskeið sitt Matarfrumkvöðullinn í Hallormsstaðaskóla og Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Geislar Gautavík ehf.

Gautavík, Berufirði
766 Djúpavogi
Sími: 777 6190 (Pálmi)
Sími: 869 7411 (Oddný)

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Kt. 680212-1630
Reikn.nr. 0111-26-290212